Skeifustræti - Lífvænleg götumynd

Anna Kristín Guðmundsdóttir

Skeifan hefur þróast frá því að vera iðnaðarhverfi í útjaðri Reykjavíkur í fjölsóttan þjónustukjarna miðsvæðis á Höfuðborgarsvæðinu. Skeifan hefur mikið aðdráttarafl og sækir þangað fjöldi fólks þjónustu og verslun af ýmsu tagi, allan sólarhringinn. Skeifan er staður þar sem fólk er og fólk mætist en í dag er bíllinn þó enn í forgangi og óspennandi götumynd. Með bættu skipulagi verður fólk í forgangi í Skeifunni og mun umhverfið hvetja fólk til að staldra við og hægja á sér í amstri hversdagsins. Skeifan verður kjarni þar sem fólk öðlast jákvæða upplifun í lifandi og lífvænlegu umhverfi.

 

Nýtt skipulag Skeifunnar eykur gæði gatnarýmis og stuðlar að öruggu og vinalegu umhverfi fyrir vegfarendur. Skeifustræti er heiti á nýrri vistgötu þar sem fólk og mannlíf er í forgangi. Vistgatan og rýmin í kringum hana mynda torg sem flæðir inní og milli bygginga að gróðursælu svæði. Það sem einkennir götuna er breyting á yfirborði götunnar sem veitir athygli og hægir á umferð. Lýsing er einnig einkennandi á götunni sem ýtir undir einstakt útlit hennar. Meðfram götunni eru liggja leiðarvísar sem lýsa veginn og ljósastaurar sem líkjast trjám lýsa upp grátt umhverfið. Ofanvatnslausnir eru meðfram götunni sem stuðla að vellíðan vegfarenda og eru hluti af sjálfbæru kerfi í nýju skipulagi Skeifunnar.

 

Skeifustræti er viðburðargata og er umhverfið öruggt, laðar að og hvetur til félagslegra samskipta. Starfsemin í byggingunum sem liggja að götunni taka þátt í og styrkja götumyndina og skapa lifandi götu. Umferðin um Skeifustræti er hæg en þar gilda reglur vistgötu um 15 km/klst hámarkshraða og fólk í forgang. Gatan hefur því nokkurs konar hlutverk torgs og tengist starfsemi bygginganna út í göturýmið. Þar af leiðandi er götumyndin margbreytileg og geta árstíðir, viðburðir og fleira sett sína mynd á götuna.