Skeifan - Ljós í myrkri

Ruth Guðmundsdóttir

Konseptið byggir á tveimur þáttum. Annars vegar hugmyndafræði Jan Gehls sem fjallar um þessar 3 tegundir athafna í okkar daglega lífi sem eru a. nauðsynlegar athafnir sem við öll tökum þátt í og eru okkur nauðsynlegar eins og fara í vinnu, versla í matinn og þess háttar, b. valkvæðar athafnir sem haldast í hendur við gæði umhverfisins í kringum okkur og verða til þegar að umhverfið býður uppá að fólk staldri við á staðnum og félagslegar athafnir sem geta eingöngu átt sér stað ef möguleikinn á valkvæðu athöfnunum er til staðar.

 

Hins vegar fjallar konseptið einnig um hvernig lýsing, sem er stór þáttur í tilveru okkar sem búum svo norðarlega á hnettinum, getur aukið upplifun okkar og ánægju öllum tímum sólarhringsins.

Þessir tveir þættir eru kveikjan og hugmyndafræðin á bakvið verkefnið sem fjallar um að skapa lifandi rými sem bjóða uppá þessar valkvæðu og félagslegu athafnir og einnig skemmtilegan arkitektúr og lýsingu sem ýtir undir upplifun þeirra sem leggja leið sína um það.

 

Svæðið skiptist í tvennt og er annar hlutinn opið torg sem ætlað er gestum og gangandi sem leggja leið sína um svæðið en ekki síður sem þægilegur staður fyrir starfsfólk og viðskiptavini sem erindi eiga í þennan kjarna en hinn hlutinn er hluti af grænum gangi sem tengir Skeifuna yfir Miklubrautina fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur og liggur í gegnum Skeifuna að Suðurlandsbrautinni. Græni gangurinn er mýrargarður með mýrartjörnum, trjám og öðrum gróðri. Torgið er formlegra með bekkjum, sporöskjlaga hæð, óformlegum sætum, gróðri og skemmtilegri lýsingu.

Unnið er með tengingar við nærliggjandi umhverfi, nýtingu sólríkustu svæðanna og mikilvægar sjónlínur í verkefninu.